Persónukjör að finnskum hætti

Undanfarnar vikur og mánuðir hafa sýnt með enn skýrari hætti en áður að sitt hvað er áfátt í stjórnskipulagi landsins. Raddir verða æ háværari um að breytinga sé þörf. Kallað er eftir ábyrgð stjórnmálamanna og embættismanna. Krafan um breytt kosningafyrirkomulag, persónukjör og beina kosningu framkvæmdavaldsins heyrist oftar og úr ólíkustu áttum. Augljóslega þarf að efla Alþingi sem óháða stoð ríkisvaldsins og gera þingið færara um að veita framkvæmdavaldinu sjálfstætt aðhald og sinna hlutverki sínu sem löggjafarvald. En þó við séum sammála um að slík markmið séu í sjálfu sér æskileg er vandinn auðvitað sá að finna leiðir sem duga og samkomulag getur orðið um að hrinda í framkvæmd. Svo vill til að innan Framtíðarlandsins hefur farið fram góð og ítarleg umræða á lýðræðishalla samfélagsins og greining á ýmsum leiðum til úrbóta. Ástæða er til að benda m.a. á ítarlega skýrslu sem félagið vann á síðasta ári þar sem bent var á mörg þeirra vandamála sem flestum eru augljós í dag. Finna má skýrsluna á heimasíðu félagsins hér. En hugum að lausnum.

Í umræðunni um kreppuna er gjarnan minnst á finnsku leiðina um viðbrögð við efnahagsþrengingunum. En til er önnur finnsk leið sem fróðlegt er að íhuga og gæti verið fordæmi hér á landi. Hún er finnska kosningafyrirkomulagið.

Finnska kosningakerfið er einföld en sérstök blanda af persónukjöri og listakosningu. Flokkarnir bjóða fram lista. Flokkarnir raða hins vegar ekki sjálfir frambjóðendum á listana. Það gera kjósendur listans sjálfir í kjörklefunum. Atkvæði er greitt með því að kjósandinn velur einn frambjóðanda af einhverjum listanum og setur merki sitt við hann. Þar með hefur hann auðvitað í leiðinni valið þann lista sem viðkomandi frambjóðandi situr á. Sá frambjóðandi hvers lista sem flest atkvæði fær raðast í efsta sæti hans. Og svo koll af kolli. Þannig raðast frambjóðendur á hverjum lista fyrir sig. Hversu mörg þingsæti listinni fær fer síðan eftir atkvæðafjölda hans í heild og er úthlutunarreglan svipuð og gildir hér heima.

Kostirnir við kerfið eru augljósir. Hver einstakur þingmaður er kosinn persónulega og enginn þingmaður flýgur inn á þing í skjóli öruggs sætis eins og hér gerist í hverjum kosningum. Hver þingmaður kemst ekki hjá því að finna til persónulegrar ábyrgðar gagnvart kjósendum, hann þarf milliliðalaust að standa þeim reikningsskil gjörða sinn í næstu kosningum. Flokksvélarnar hafa það heldur ekki lengur í hendi sér að tryggja mönnum þingsæti. Góður árangur í mislýðræðislegu prófkjöri á vegum flokkanna skiptir litlu eða engu máli þegar kosningarnar sjálfar eru hið raunverulega prófkjör. Stuðningur flokksforystu við tiltekinn þingmann  breytir harla litlu fyrir þingmanninn verðandi ef hann getur ekki sem einstaklingur náð til kjósenda. Rökrétt niðurstaða kerfisins er að þingmenn verða mun meðvitaðri um sjálfstæðar skyldur sínar sem þingmenn og eflir þá gagnvart flokksvaldi og um leið þingið gagnvart framkvæmdavaldi.

Og hinir raunverulegu valdhafar í lýðræðisþjóðfélagi, fólkið sjálft, kjósendurnir, hafa beinan aðgang að því að styðja eða hafna hverjum einstökum þingmanni. Hér þekkjum við  útstrikunarkerfið af dapurri reynslu og vitum að það dugir engan veginn til þess að þjóna þeirri lýðræðislegu kröfu að kjósendur sjálfir getir ráðið umboði sínu. 

Að sjálfsögðu er engin ein patent lausn til sem leyst getur allan vanda. Hér þarf að breyta ýmsum atriðum sem varða t.d. beint lýðræði, skerpa á þrískiptingu valdsins, bæta starfshætti stjórnvalda og stjórnsýslunnar, auka gegnsæi samfélagsins, efla óháða fjölmiðlun og síðast en ekki síst að bæta pólítískt siðferði og lýðræðismenningu.  En að taka upp kosningafyrirkomulag að finnskum hætti kann vel að vera mikilvægur áfangi á þeirri vegferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kjartan Rolf Árnason

Höfundur

Kjartan Rolf Árnason
Kjartan Rolf Árnason
Ljóðrænn verkfræðingur með skoðanir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  •  46316580 arctic temperatures 466gr

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband