Það má aldrei koma fyrir aftur – en hvernig komum við í veg fyrir það ?

Það er komin kreppa. Kannast nokkur við það annars ? Og víst er það rétt að ótal aðgerðir varða leiðina út aftur. Reyndar virðist enginn hörgull á hugmyndum um hvað þurfi að gera.  En - hvernig gátum við lent í þessum pytti? Góð spurning. Mörg svör. Eitt þeirra kemur hér á eftir.  

Ljósara er björtum degi að ótal sinnum var bent á mistök sem gerð væru og hvert stefndi ef ekki væri gripið til úrbóta. Ekki stóð heldur á ábendingum um hvernig þyrfti að bregðast við. Ekki af einum, ekki fáum heldur fjölmörgum mönnum, mönnum sem vit höfðu á og væru þess verðir að hlustað væri á þá. En ekkert var hlustað og ekkert var gert. Gagnrýni og ábendingar voru afgreiddar sem óráðshjal ómarktækra og öfundsjúkra. Í fullkominni vissu um eigin óskeikulleika tóku skósveinar æðstráðanda að sér að hrópa menn í kaf eða þagga menn niður eftir hvernig lá á. Eða leggja niður stofnun með óæskilegar skoðanir ef sá gállinn var á.

Sjálfskaparvíti okkar er til orðið í skjóli óskhyggju, afneitun veruleikans og allrar gagnrýni, þjónusta við þrönga sérhagsmuni, viðvaningsháttur og hroki gagnvart fagþekkingu sem árum saman hafa ráðið för í íslensku samfélagi. Og spurt er hvernig má slíkt verða. Hvernig fá „siðblinda, siðvilla og geðvilla" eins og Vilhjálmur Bjarnason orðaði það svo snyrtilega fyrir stuttu, að vaða uppi án þess að stjórnvöld aðhafist nokkuð?  Samtvinnun og samþjöppun valds - sem fer sínu fram án aðhalds frá þeim sem gæta eiga þjóðarhags  - stjórnvöld sem taka fullt tillit til sérhagsmuna fárra en engra til almannahags - þöggun gagnrýni og hreinskilinnar þjóðfélagsumræðu, samfélag þar sem gagnrýnendur eru úthrópaðir og lagðir í einelti. Fjölmiðlar sem eru ófærir um að upplýsa og rýna og gagnrýna. Þetta hefur einkennt samfélagið allt of lengi og í samfélagi þar sem slíkt fær þrifist árum saman er eitthvað að því sem á heita lýðræðið.

Horfumst í augu við að alvarlegur lýðræðishalli er í samfélaginu.Samfélagið glímir við það sem kalla mætti kalla klassískan umboðsvanda. Stjórnmálamenn þiggja umboð sitt frá þjóðinni, en flestum stjórnvöldum hefur á undraverðan hátt tekist að einangra sig frá afskiptum og aðhaldi umbjóðenda sinna. Framkvæmdavaldið á að þiggja meirihlutavald sitt frá löggjafarvaldinu og annast framkvæmd laga sem löggjafarvaldið setur. Í raun er er búið að snúa þessu á haus. Lög eru samin, - eða þýdd úr útlensku - af embættismönnum ráðuneytanna til þings sem framkvæmdavaldið drottnar yfir af fullkomnu virðingarleysi. Allt í krafti stjórnmálaflokka sem spinna þræði sína um allt samfélagið. Á flokka er auðvitað hvergi minns í stjórnarskrá og um þá gilda óttalega haldlítil og fábrotin lög.

Hér þarf sitthvað að breytast. Við þufum að efla aðhald og ábyrgð þeirra sem með völdin fara gagnvart umbjóðanda sínum, þjóðinni sjálfri.  Skerpa ábyrgð þingmanna gagnvart kjósendum,  takmarka  ráðherraræði , efla löggjafarvaldið og tryggja kjósendum rétt til afskipta og frumkvæðis um einstök mál.  Og að sjálfsögðu eiga öll atkvæði að gilda jafnt.

Alltaf eru margar leiðir að sama marki en eftirtaldar hugmyndir ættu  að skila okkur vel áleiðis. Í fyrsta lagi fáeinar tiltölulega einfaldar breytingar á stjórnarskrá:

  • Málskotsréttur til þjóðaratkvæðagreiðslu um löggjöf eða frumvarp til laga að kröfu annars vegar minnihluta þings (t.d. 25%) enda sé hún studd undirskriftum lágmarksfjölda kjósenda (t.d. 15%), eða hins vegar forseta.
  • Taka upp finnska kosningakerfið - kjósandi velur einstakling beint, og listann einungis óbeint.
  • Ráðherrar mega ekki jafnframt sitja á þingi.
  • Gera landið allt að einu kjördæmi .

Auk þess þurfa að koma til enn frekari umbætur á lögum um fjármál og starfsemi stjórnmálaflokka til að tryggja gegnsæi í fjármögnun, lýðræðislega starfshætti og takmarka áhrifavald peninga á kosningar. Þar má nefna m.a.

  • Óheimilt verði að bjóða fram fullskipaðan lista nema valið hafi verið inn á hann í leynilegu prófkjöri, sem uppfylli lágmarkskröfur um lýðræðislega kosningu.
  • Hámark á útgjöldum til kosningabaráttu. Opið bókhald. Kosningasjóðir fjármagnaðir af ríkinu.
  • Óheimilt verði að birta opinberlega niðurstöður skoðanakannana síðustu 2 vikur fyrir kosningar.
  • Stjórnmálaflokkar opni bókhald sitt og geri grein fyrir hverjir séu styrktaraðilar þeirra.
  • Setja þarf lög um þjóðaratkvæðagreiðslur og íbúakosningar, sem m.a. tryggi báðum málsaðilum jafna aðstöðu til kynningar á málstað sínum og aðgang kjósenda að fullnægjandi upplýsingum.

Bæta þarf við starfshætti þingsins, m.a. með því að:

  • Styrkja stöðu Alþingis sem stofnunar, m.a. svo það sjálft geti annast samningu lagafrumvarpa í stað þess að vera algerlega háð ráðuneytum undir stjórn ráðherra í því efni.
  • Taka upp reglulegar „hearings" í heyranda hljóði yfir ráðherrum, embættismönnum og öðrum sem við á hverju sinni og óháðar rannsóknarnefndir.
  • Skerpa þarf lög um ráðherraábyrgð. Krefjast verður m.a. að ráðherrar axli ábyrgð á athöfnum ráðuneytis og undirstofnana.

Leita þarf allra leiða til að efla sjálfstæða og óháða fjölmiðlun í landinu, m.a. með því að:

  • RÚV þarf að einbeita sér að kjarnahlutverki sínu sem menningar- og fræðslustofnun ásamt því að reka óháða fréttastofu, en draga sig úr dýrri samkeppni um afþreyingarefni og út af auglýsingamarkmaði.
  • Setja þarf um lög um verndun „whistleblowers".
  • Setja þarf vönduð fjölmiðlalög sem tryggi að markaðsráðandi fjölmiðlar séu ekki bundnir á klafa hagsmuna eigenda sinna.
  • Tryggja þarf rétt almennings til upplýsinga sem varða almannahag.

Jafnframt  þarf að viðurkenna allan almenning, ekki bara landeigendur, sem hagsmunaðila að umhverfi og náttúru Íslands. M.a. þarf að:

  • Lögleiða Árósarsamninginn.
  • Endurbæta löggjöf um umhverfisvernd, m.a. með því að skýra efnisákvæði laganna þannig að almenn hugtök svo sem „sjálfbær þróun" og „óásættanleg" umhverfisáhrif fái inntak sem hald er í.
  • Endurbæta löggjöf um skipulagsmál svo tekið sé tillit til heildarinnar en ekki einungis hagsmuna fárra.
  • Ósnortin náttúra og auðlindir lands og sjávar eru sameign þjóðarinnar, ekki einungis núlifandi kynslóðar heldur óborinna kynslóða. Um það þarf að standa vörð.

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég mun lesa þetta aftur og betur. Það þarf örugglega að breyta mörgu í kerfinu hér.

Margrét Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Kjartan Rolf Árnason

Höfundur

Kjartan Rolf Árnason
Kjartan Rolf Árnason
Ljóðrænn verkfræðingur með skoðanir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  •  46316580 arctic temperatures 466gr

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband