Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
13.11.2008 | 17:52
Læknum lýðræðið
Íslenskir stjórmálamenn hafa orðið berir að því að vera vanhæfir. Að loka augunum fyrir aðsteðjandi ógn. Að taka sérhagsmuni fram yfir almannaheill. Að taka flokkinn sinn og flokksagann fram yfir allt annað. Flokkshollusta gengur framar hæfni. Skrökva blákalt framan í þjóðina. Dylja upplýsingum. Blekkja. Ráðherrar drottna yfir framkvæmdavaldinu og löggjafarvaldinu og komast upp með hvaða duttlunga og vitleysu og loddaraskap sem er. Lög um ráðherraábyrgð er orðin tóm. Aðhaldið er ansi léttvægt, hvort sem er frá öðrum greinum valdsins, stofnunum, fjölmiðlum, hvað þá fólkinu í landinu.
Og svo valda þeir alls ekki verkefninu. Skilja ekki viðfangsefnið, hafa ekki rænu á að fá sér hæfa ráðgjafa og geta ekki tekið óþægilegar ákvarðanir.
Þetta eru einkenni sjúks lýðræðis.
Og þannig hefur þetta verið í mörg ár og þannig var leiðin þangað sem við erum komin nú. Ef eðlilegs aðhalds og ábyrgðar og virðingar fyrir almannahag og alvöru vinnubrögðum verið gætt hefði sú leið verið ófær, einhvers staðar hefði verið hindrun á leiðinni.
Á Nýja Íslandi má þetta ekki vera hægt. Við þurfum að lækna lýðræðið. Setja stjórmálamenn í þá stöðu að bera ábyrgð. Gagnvart kjósendum sínum. Ráðherra gagnvart þinginu. Greina í sundur með ríkisstjórn og þingi. Auka aðhald. Gefa fólki tækifæri til að taka í taumana, eiga frumkvæði. Opna samfélagið, opna stjórnsýsluna, auka gegnsæið. Það eru til ótal úrræði, vel þekkt.
Notum þau líka hér.
11.11.2008 | 10:26
Þökk sé þeim sem rata leiðina til nýja Íslands
Ég er ekki alltaf sammála Bjarna Harðarsyni. Alls ekki. En ég virði það ómælt þegar menn sýna kjark til að brjótast út úr viðjum vana og úreltra hefða. Og þora að taka til sín ábyrgð í stað þess að vísa henni frá.
Í hinu nýja Íslandi axla þeir ábyrgð sem á endanum bera hana. Þökk sé þeim sem rata leiðina þangað. Hinum verður hún þá auðgengnari.
Nú bíð ég eftir að Björgvin G. axli ábyrgð á vanrækslusyndum og vanhæfni undirmanna í FME, hans var vaktin og skyldan að tryggja góð störf undirmanna sinna. Og síðan forsætisráðherra, fjármálaráðherra, bankastjóra Seðlabankans ... svona augljósustu næstu skref.
Bjarni segir af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.11.2008 | 11:11
Sljóleiki fjölmiðla og hrun Íslands
Í gær varð ég vitni að merkilegum atburði. Venjulegt fólk, eldri borgara, fjölskyldur, mæður með ung börn sín, fólk úr öllum geirum þjóðfélagsins, hópaðist saman niður í miðbæ Reykjavíkur. Fyrst fyllty það Iðnó. Þar var hvert sæti skipað, fólk stóð meðfram öllum veggjum, gangurinn var troðfullur af fólki, fyrir utan voru þeir sem ekki komust að inni fyrir og hlustu á ræður manna, beittar spurningar og svörin úr hátölurum. Alvöru borgarafundur. Alvöru mótmælafundur. Og fólki var mikið niðri fyrir.
Eftir fundinn rölti ég út á Austurvöll þar sem var stappað af fólki. Ég hef aldrei séð svona margt fólk á Austurvelli ef frá eru talin 17.júní hátíðarhöld og menningarnótt. Á leiðinni þurfti ég að útskýra fyrir nokkrum útlendum blaðamönnum hvað stæði á mótmælaspjöldunum. Þeir myndiuðu í gríð og erg. Í heilan klukkutíma stóð fólkið rólegt, hlustaði, klappaði.
Það eru tímamót í íslenskri samtímasögu að venjulegu fólki sé svo nóg boðið af framgangi stjórnvala að það þyrpist út á götur til að taka þátt í friðsömum mótmælum helgi eftir helgi. Við vitum öll að slíkt gerist ekki á Íslandi. Fyrr en nú.
En næstum því ennþá merkilegara þótti mér fréttaflutningurinn af viðburðunum. Fjölmiðlum þótti allt þetta ekkert fréttnæmt. Að þúsundir manna söfnuðust saman til að krefjast breytinga. Fjölmiðlum þótti ekki féttaefni hvers væri krafist. Hverjir hefðu haldið ræður.
Nei í staðinn nýttu fréttamenn sér það að ungur maður hefði klifrað upp á Alþingishúsið og flaggað fána og að eftir að fundinum sjálfum var slitið hefði hópur ungmenna kastað eggjum á þinghúsið. Allt í einu hét það að mótmæli hefðu leyst upp í óeirðir, átök við lögregluna og ég veit ekki hvað. Ég var þarna. Veit að þetta er fjarri öllu sanni. Sá Geirjón standa við annan mann í rólegheitum að spjalla við "óeirðaseggina". En veit að þeir sem ekki voru á staðnum heldur lesa bara blöðin fá ekkert að vita af því sem gerðist í raun og veru, þeir fregna bara uppspunna sögu af "óeirðum" og æsingum.
Og fjölmiðlar afhjúpa sinnuleysi sitt og sljóleika gagnvart raunverulegum viðburðum, því sem raunverulega er að gerast í samfélaginu og birta enn einu sinni stórhættulega fíkn sína í "spectacle". Ekki að undra að slíkir fjölmiðlar hafi gersamlega brugðist því hlutverki sínu sem "fjórða valdið" - hlutverki upplýsandans sem segir okkur hvað er að gerast í samfélaginu, þannig að við syndum óvitandi og sinnulaus inn í hyldýpi hrunsins og kreppunnar án þess að nokkur gripi í taumana meðan fáfróðir og ábyrgðarlausir einstaklingar véluðu og díluðu í sandkassaleik og áttu að heita stjórnvöld.
8.11.2008 | 22:46
There is something rotten in the state of Iceland ...
Dagar líða. Vikur líða. Mánuður er þegar liðinn. Og enn hefur enginn verið látinn axla ábyrgð.
Úti í heimi er hugtakið "Iceland syndrome" orðið samnefni á fjármálahruni vegna peningaóstjórnar í litlu skuldsettu hagkerfi. Prófið bara að gúgla það. Og íslenski seðlabankastjórinn orðinn heimsfrægur. Af endemum auðvitað.Uppáhaldssagnfræðingurinn minn skrifaði einu sinni bókina "The March of Folly". Hún fjallar um sígild dæmi úr veraldarsögunni um hversu djúpt hægt er að sökkva á heimskunni einni saman. Kannski tekst okkur að koma Íslandi í svona bók? Hreint ekki fjarlægur draumur. Hvað sagði ekki Nóberlsverðlaunahafinn í hagfræði, að "your contry has been run by fools for years" og við hefðum getað betur með handahófsvali á ráðherrum og seðlabankastjórum úr símaskránni ?
Og enn koma ekki margboðuð lán frekar en Godot forðum. Þeir sem þó lána nenna ekki einu sinni lengur að tala við stjórnvöld á klakanum. Auðvitað ekki. Til hvers. Í alvöru löndum eru mönnum sparkað þegar stórfelld mistök gerast. Útlendingar skilja það. Þeir skilja ekki þessa séríslensku visku, "óviðeigandi er að persónugera vandann". Þeir vita bara að þegar enginn er látinn fara þykja enginn mistök hafa átt sér. Að við erum sammála. Að við erum samsek. Það eru skilaboðin. Frá okkur. Okkur öllum sameiginlega. Og þau heyrast. Skýrt og greinilega.
Og er einhver hissa á að útlendingar sendi ekki milljarðana sína viðstöðulaust í hendurnar nákvæmlega þeim hinum sömu ..... ?
5.11.2008 | 21:45
Það má aldrei koma fyrir aftur – en hvernig komum við í veg fyrir það ?
Ljósara er björtum degi að ótal sinnum var bent á mistök sem gerð væru og hvert stefndi ef ekki væri gripið til úrbóta. Ekki stóð heldur á ábendingum um hvernig þyrfti að bregðast við. Ekki af einum, ekki fáum heldur fjölmörgum mönnum, mönnum sem vit höfðu á og væru þess verðir að hlustað væri á þá. En ekkert var hlustað og ekkert var gert. Gagnrýni og ábendingar voru afgreiddar sem óráðshjal ómarktækra og öfundsjúkra. Í fullkominni vissu um eigin óskeikulleika tóku skósveinar æðstráðanda að sér að hrópa menn í kaf eða þagga menn niður eftir hvernig lá á. Eða leggja niður stofnun með óæskilegar skoðanir ef sá gállinn var á.
Sjálfskaparvíti okkar er til orðið í skjóli óskhyggju, afneitun veruleikans og allrar gagnrýni, þjónusta við þrönga sérhagsmuni, viðvaningsháttur og hroki gagnvart fagþekkingu sem árum saman hafa ráðið för í íslensku samfélagi. Og spurt er hvernig má slíkt verða. Hvernig fá siðblinda, siðvilla og geðvilla" eins og Vilhjálmur Bjarnason orðaði það svo snyrtilega fyrir stuttu, að vaða uppi án þess að stjórnvöld aðhafist nokkuð? Samtvinnun og samþjöppun valds - sem fer sínu fram án aðhalds frá þeim sem gæta eiga þjóðarhags - stjórnvöld sem taka fullt tillit til sérhagsmuna fárra en engra til almannahags - þöggun gagnrýni og hreinskilinnar þjóðfélagsumræðu, samfélag þar sem gagnrýnendur eru úthrópaðir og lagðir í einelti. Fjölmiðlar sem eru ófærir um að upplýsa og rýna og gagnrýna. Þetta hefur einkennt samfélagið allt of lengi og í samfélagi þar sem slíkt fær þrifist árum saman er eitthvað að því sem á heita lýðræðið.
Horfumst í augu við að alvarlegur lýðræðishalli er í samfélaginu.Samfélagið glímir við það sem kalla mætti kalla klassískan umboðsvanda. Stjórnmálamenn þiggja umboð sitt frá þjóðinni, en flestum stjórnvöldum hefur á undraverðan hátt tekist að einangra sig frá afskiptum og aðhaldi umbjóðenda sinna. Framkvæmdavaldið á að þiggja meirihlutavald sitt frá löggjafarvaldinu og annast framkvæmd laga sem löggjafarvaldið setur. Í raun er er búið að snúa þessu á haus. Lög eru samin, - eða þýdd úr útlensku - af embættismönnum ráðuneytanna til þings sem framkvæmdavaldið drottnar yfir af fullkomnu virðingarleysi. Allt í krafti stjórnmálaflokka sem spinna þræði sína um allt samfélagið. Á flokka er auðvitað hvergi minns í stjórnarskrá og um þá gilda óttalega haldlítil og fábrotin lög.
Hér þarf sitthvað að breytast. Við þufum að efla aðhald og ábyrgð þeirra sem með völdin fara gagnvart umbjóðanda sínum, þjóðinni sjálfri. Skerpa ábyrgð þingmanna gagnvart kjósendum, takmarka ráðherraræði , efla löggjafarvaldið og tryggja kjósendum rétt til afskipta og frumkvæðis um einstök mál. Og að sjálfsögðu eiga öll atkvæði að gilda jafnt.
Alltaf eru margar leiðir að sama marki en eftirtaldar hugmyndir ættu að skila okkur vel áleiðis. Í fyrsta lagi fáeinar tiltölulega einfaldar breytingar á stjórnarskrá:
- Málskotsréttur til þjóðaratkvæðagreiðslu um löggjöf eða frumvarp til laga að kröfu annars vegar minnihluta þings (t.d. 25%) enda sé hún studd undirskriftum lágmarksfjölda kjósenda (t.d. 15%), eða hins vegar forseta.
- Taka upp finnska kosningakerfið - kjósandi velur einstakling beint, og listann einungis óbeint.
- Ráðherrar mega ekki jafnframt sitja á þingi.
- Gera landið allt að einu kjördæmi .
Auk þess þurfa að koma til enn frekari umbætur á lögum um fjármál og starfsemi stjórnmálaflokka til að tryggja gegnsæi í fjármögnun, lýðræðislega starfshætti og takmarka áhrifavald peninga á kosningar. Þar má nefna m.a.
- Óheimilt verði að bjóða fram fullskipaðan lista nema valið hafi verið inn á hann í leynilegu prófkjöri, sem uppfylli lágmarkskröfur um lýðræðislega kosningu.
- Hámark á útgjöldum til kosningabaráttu. Opið bókhald. Kosningasjóðir fjármagnaðir af ríkinu.
- Óheimilt verði að birta opinberlega niðurstöður skoðanakannana síðustu 2 vikur fyrir kosningar.
- Stjórnmálaflokkar opni bókhald sitt og geri grein fyrir hverjir séu styrktaraðilar þeirra.
- Setja þarf lög um þjóðaratkvæðagreiðslur og íbúakosningar, sem m.a. tryggi báðum málsaðilum jafna aðstöðu til kynningar á málstað sínum og aðgang kjósenda að fullnægjandi upplýsingum.
Bæta þarf við starfshætti þingsins, m.a. með því að:
- Styrkja stöðu Alþingis sem stofnunar, m.a. svo það sjálft geti annast samningu lagafrumvarpa í stað þess að vera algerlega háð ráðuneytum undir stjórn ráðherra í því efni.
- Taka upp reglulegar hearings" í heyranda hljóði yfir ráðherrum, embættismönnum og öðrum sem við á hverju sinni og óháðar rannsóknarnefndir.
- Skerpa þarf lög um ráðherraábyrgð. Krefjast verður m.a. að ráðherrar axli ábyrgð á athöfnum ráðuneytis og undirstofnana.
Leita þarf allra leiða til að efla sjálfstæða og óháða fjölmiðlun í landinu, m.a. með því að:
- RÚV þarf að einbeita sér að kjarnahlutverki sínu sem menningar- og fræðslustofnun ásamt því að reka óháða fréttastofu, en draga sig úr dýrri samkeppni um afþreyingarefni og út af auglýsingamarkmaði.
- Setja þarf um lög um verndun whistleblowers".
- Setja þarf vönduð fjölmiðlalög sem tryggi að markaðsráðandi fjölmiðlar séu ekki bundnir á klafa hagsmuna eigenda sinna.
- Tryggja þarf rétt almennings til upplýsinga sem varða almannahag.
Jafnframt þarf að viðurkenna allan almenning, ekki bara landeigendur, sem hagsmunaðila að umhverfi og náttúru Íslands. M.a. þarf að:
- Lögleiða Árósarsamninginn.
- Endurbæta löggjöf um umhverfisvernd, m.a. með því að skýra efnisákvæði laganna þannig að almenn hugtök svo sem sjálfbær þróun" og óásættanleg" umhverfisáhrif fái inntak sem hald er í.
- Endurbæta löggjöf um skipulagsmál svo tekið sé tillit til heildarinnar en ekki einungis hagsmuna fárra.
- Ósnortin náttúra og auðlindir lands og sjávar eru sameign þjóðarinnar, ekki einungis núlifandi kynslóðar heldur óborinna kynslóða. Um það þarf að standa vörð.
Um bloggið
Kjartan Rolf Árnason
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 176
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar