Að vilja virðast vera eða vera er nú ekki það sama

Og hvers vegna þurfti þá allt árið 2007 og allt árið 2008 og langt fram á 2009 - sem sé þangað til daginn eftir að málið komst í hámæli til að finna út að þetta voru mistök ????

Fyrir mér sauðsvörtum múgamanni sýnist mér þetta snúast um merkingarmuninn á því að VIRÐAST heiðarlegur og VERA heiðarlegur.

Þeir sem ERU heiðarlegir leiðrétta nefnilega líka mistökin sem komast ekki í hámæli.

En þetta veit auðvitað allt venjulegt fólk, nema auðvitað þeir Sjálfstæðismenn sem nú keppast lon og don við að afhjúpa annars konar viðhorf .......


mbl.is „Augljós mistök“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru auknar tekjutengingar ekki líka skattahækkun ???

Merkileg þessi skattaræða sjálfstæðismanna, þeir staglast á því að aðrir ætli að hækka skatta en sko alls ekki þeir - þeir ætli nefnilega að draga úr kostnaði með því að auka tekjutengingar í skattakerfinu.

En ég veit ekki betur en að það séu skattahækkanir líka, - en auðvitað eingöngu á fólk með miðlungstekjur, barnafólk, öryrkja og gamalmenni - hátekjufólk sleppur auðvitað. Sem sagt í munni sjálfstæðismanna eru hærri skattar á venjulegt fólk og þá sem minna mega sín þá ekki skattahækkanir svo lengi sem efnafólkið sleppur - eða hvað ?

 


mbl.is „Hvítþvegin bleyjubörn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ja, maður spyr sig, .... Rei ?

Vandfundin var hún þessi frétt þegar ég skimaði eftir henni núna kl 7.30 morguninn eftir, ein aðalfréttin á öðrum fjölmiðlum. Kúnstugt hvað sumar fréttir sökkva snögglega ofan í dýið innan um allan tittlingaskítinn.

Skyldi einhver bara rekast á hana hér er þetta gott íhugunarefni í leiðinni, sem sé eitt stykki fyrirtæki leggur valdaflokki til risafjárhæð og fáeinum vikum síðan komið með einn skrýtnasta og umdeildasta viðskiptasamning seinni tíma, sjálfan Rei samninginn.

Hmmm, - samhengi þarna milli ...... ja, maður spyr sig!


mbl.is 30 milljóna styrkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul frétt, en ef einhver langar til að sjá það sem bretarnir voru að hjala þá ....

Einmitt, svo sem ekki ný frétt en birtist þó loksins á forsíðu Moggans. Reyndar kom líka rækilega fram í umræðunni á breska þinginu að það var ekki bara líka Árni heldur líka yfirlýsingar Daviðs Oddsonar (lesist Kastljósviðtalið fræga) sem hleypti skriðunni af stað.

Raunar læt ég nægja að vísa í gamalt blogg frá mér með tilvitnunum í orð breska ráðherrans og fleiri, ásamt tengli á heildartextann fyrir áhugasama, umræðan er jú opinber gögn sem hver sem er getur skoðað ..... merkilega lítið samt um að íslenskir blaðamenn hafi gert það í öllum sínum vangaveltum undanfarna mánuði um málið.

 

 

 


mbl.is Hryðjuverkalög vegna samtals Árna við Darling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innanflokksdagskrá útilokar breytingar, var það ekki já

Einmitt, ekki hægt að rýmka til fyrir persónukjöri af því það hentar ekki undirbúningi Sjálfstæðisflokksins.

Skemmtileg sýn á hvað er og hvað er ekki hægt. Svona í anda þess að viðbrögðum við bankahruninu var frestað fram yfir Landsfund. Eða að óþægindi innan flokks vegna þess gamla koma í veg fyrir burtvikningu Seðlabankastjóra sem er ígildi efnahagslegs stoppmerkis á Ísland.

Sjálfsagt hefur ekki hvarflað að þingflokki allra landsmanna að hægt sé að samþykkja breytingar á viku eða svo enda dagljóst hvað ÞJÓÐIN kallar á. Og vinna svo út frá því. Til dæmis að bjóða fram óraðaðan lista og bara - sleppa - prófkjörunum alveg ? Ætti nú ekki að vera flókið, ha, er það nokkuð ?

 


mbl.is Vinna áfram að persónukjöri þótt ekki náist sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Moldrok og smjörklípur eða þjóðarhagsmunir

Skósveinaflokkurinn ætlar greinilega að gera sitt versta í smjörklípubakstri og moldviðraþyrli um fullkomin aukaatriði eða, jafnvel heimatilbúin aukaatriði, meðan hagsmunir þjóðarinnar brenna skjótt og örugglega á báli bankahrunsins. Svo þykjast þeir hafa verið tilbúnir að skipta út stórhættulegum Seðlabankastjóranum í tíð síðustu, ha ha ha - það má nú aldeilis sjá!

Varla vert að þylja upp tilefni til brottrekstrar Seðlabanka, en þau sjá allir sem augu hafa og heyra sem eyru hafa.

En það má svo sem renna yfir þessi tilefni hér, ekki hlutlaust, en ómótmælanlegt samt, og svo líka þessi fína skýrsla sem rekur afglöp Davíðs og annarra ljómandi. Hérna eru líka samantekt af tilvitnunum, já eigum við að kalla það sýnidæmi trúverðugleikans, héðan og þaðan af bloggi G.Péturs frá 10.feb. ...

Varla verðu því trúað að atvinnumenn í pólitík geri sér ekki grein fyrir skaðanum að því að klára ekki þessi útskipti í einum grænum. Að enn skuli finnast þingmenn sem ekki geta stutt bráðaðkallandi verk landinu til heilla í þeirri stöðu sem við erum nú í er ekki bara dapurlegra en orð fá lýst - það er siðlaust, ábyrgðarlaust og allt að því glæpsamlegt.


mbl.is Birgir aflétti leynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökum snúið á haus frá því Davíð rak Landsbankastjórana

Jæja, kom þá loksins svarbréf Davíðs og varla neitt sem kemur á óvart í því. En verðugt er að rifja upp rökstuðning Davíðs sjálfs frá því hann rak bankastjóra Landsbankans á sínum tíma, löngu áður en ráðningartími þeirra rann út. Þá þótti honum alveg sjálfsagt að þeir færu með illu af eintómum - já, hvað heitir það nú hjá karlinum, "óefnislegum ástæðum" - sem sagt til þess að skapa einhug og sátt og tryggja að trúverðugleiki bankans yrði ekki dreginn í efa, enda væri trúverðugleiki lykilatriði í bankarekstri.

Já nú heita þær eitthvað allt annað þessar nákvæmlega sömu röksemdir - þó af miklu sterkara tilefni séu, því varla er nú hægt að bera saman efasemdir um Landsbankann út af kruðeríi og veiðiferðum bankastjóranna og fordæmalausu háð um Seðlabanka Íslands um allan hinn vestræna heim.

Sitt er nú hvað, eigið skinn eða annarra! Svo ekki sé nú talað um háheilagt skinn Davíðs heilags Oddssonar.


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónukjör að finnskum hætti

Undanfarnar vikur og mánuðir hafa sýnt með enn skýrari hætti en áður að sitt hvað er áfátt í stjórnskipulagi landsins. Raddir verða æ háværari um að breytinga sé þörf. Kallað er eftir ábyrgð stjórnmálamanna og embættismanna. Krafan um breytt kosningafyrirkomulag, persónukjör og beina kosningu framkvæmdavaldsins heyrist oftar og úr ólíkustu áttum. Augljóslega þarf að efla Alþingi sem óháða stoð ríkisvaldsins og gera þingið færara um að veita framkvæmdavaldinu sjálfstætt aðhald og sinna hlutverki sínu sem löggjafarvald. En þó við séum sammála um að slík markmið séu í sjálfu sér æskileg er vandinn auðvitað sá að finna leiðir sem duga og samkomulag getur orðið um að hrinda í framkvæmd. Svo vill til að innan Framtíðarlandsins hefur farið fram góð og ítarleg umræða á lýðræðishalla samfélagsins og greining á ýmsum leiðum til úrbóta. Ástæða er til að benda m.a. á ítarlega skýrslu sem félagið vann á síðasta ári þar sem bent var á mörg þeirra vandamála sem flestum eru augljós í dag. Finna má skýrsluna á heimasíðu félagsins hér. En hugum að lausnum.

Í umræðunni um kreppuna er gjarnan minnst á finnsku leiðina um viðbrögð við efnahagsþrengingunum. En til er önnur finnsk leið sem fróðlegt er að íhuga og gæti verið fordæmi hér á landi. Hún er finnska kosningafyrirkomulagið.

Finnska kosningakerfið er einföld en sérstök blanda af persónukjöri og listakosningu. Flokkarnir bjóða fram lista. Flokkarnir raða hins vegar ekki sjálfir frambjóðendum á listana. Það gera kjósendur listans sjálfir í kjörklefunum. Atkvæði er greitt með því að kjósandinn velur einn frambjóðanda af einhverjum listanum og setur merki sitt við hann. Þar með hefur hann auðvitað í leiðinni valið þann lista sem viðkomandi frambjóðandi situr á. Sá frambjóðandi hvers lista sem flest atkvæði fær raðast í efsta sæti hans. Og svo koll af kolli. Þannig raðast frambjóðendur á hverjum lista fyrir sig. Hversu mörg þingsæti listinni fær fer síðan eftir atkvæðafjölda hans í heild og er úthlutunarreglan svipuð og gildir hér heima.

Kostirnir við kerfið eru augljósir. Hver einstakur þingmaður er kosinn persónulega og enginn þingmaður flýgur inn á þing í skjóli öruggs sætis eins og hér gerist í hverjum kosningum. Hver þingmaður kemst ekki hjá því að finna til persónulegrar ábyrgðar gagnvart kjósendum, hann þarf milliliðalaust að standa þeim reikningsskil gjörða sinn í næstu kosningum. Flokksvélarnar hafa það heldur ekki lengur í hendi sér að tryggja mönnum þingsæti. Góður árangur í mislýðræðislegu prófkjöri á vegum flokkanna skiptir litlu eða engu máli þegar kosningarnar sjálfar eru hið raunverulega prófkjör. Stuðningur flokksforystu við tiltekinn þingmann  breytir harla litlu fyrir þingmanninn verðandi ef hann getur ekki sem einstaklingur náð til kjósenda. Rökrétt niðurstaða kerfisins er að þingmenn verða mun meðvitaðri um sjálfstæðar skyldur sínar sem þingmenn og eflir þá gagnvart flokksvaldi og um leið þingið gagnvart framkvæmdavaldi.

Og hinir raunverulegu valdhafar í lýðræðisþjóðfélagi, fólkið sjálft, kjósendurnir, hafa beinan aðgang að því að styðja eða hafna hverjum einstökum þingmanni. Hér þekkjum við  útstrikunarkerfið af dapurri reynslu og vitum að það dugir engan veginn til þess að þjóna þeirri lýðræðislegu kröfu að kjósendur sjálfir getir ráðið umboði sínu. 

Að sjálfsögðu er engin ein patent lausn til sem leyst getur allan vanda. Hér þarf að breyta ýmsum atriðum sem varða t.d. beint lýðræði, skerpa á þrískiptingu valdsins, bæta starfshætti stjórnvalda og stjórnsýslunnar, auka gegnsæi samfélagsins, efla óháða fjölmiðlun og síðast en ekki síst að bæta pólítískt siðferði og lýðræðismenningu.  En að taka upp kosningafyrirkomulag að finnskum hætti kann vel að vera mikilvægur áfangi á þeirri vegferð.


Kreppan framundan er alvöru kreppa, þessi er bara hégómi

Í dag er kreppa. Heimskreppa, svona næstum því alla vega. En aðallega kreppa á Íslandi. Hún er slæm. Kom óvænt en þó margboðuð. Við nefnilega hlustuðum ekki á aðvaranir, héldum dauðahaldi í óskhyggjuna og afneituðum einfaldlega óþægilegum veruleika.

En þessi kreppa er samt ekkert svo merkileg. Við verðum bara ekki eins rík og við vorum áður. En samt rosalega rík miðað við flestar aðrar þjóðir.

En framundan er önnur kreppa. Vistkerfiskreppan. Hún er svona alvöru. Hún snýst um tilverugrundvöllinn sjálfan, lífsskilyrðin. Hún er 5 aldauðatímabil jarðsögunnar. Það síðasta var þegar risaeðlurnar dóu út. James Lovelock uppgötvaði gangvirkið sem framkallar hana fyrir næstum hálfri öld. Þá var hlegið að honum. Nú er hann einn virtasti vísindamaður heims á þessu sviði. Hann telur að við séum komin á tímabil óafturkræfra breytinga, gangvirkið verði ekki stöðvað héðan af. Það eru ekki allir sammála honum. Vonandi hafa þeir rétt fyrir sér, því Lovelock reiknar með fjöldafelli ekki bara dýra heldur líka manna. Að mannkyni muni fækka um svona cirka 80% á öldinni.

Vísindamenn eru sammála um að breytingar séu að gerast og það hratt, - stutt sé í óafturkræfar breytingar og hamskipti umhverfisins. Aðeins er óvissa um hve langur tími sé til stefnu. Stjórmálamönnum hefur ekki þótt ástæða til þess að gera neitt sérstakt - af því að módelin voru ekki hárnákvæm, af því að óvissan var til staðar. Nú er að koma betur og betur í ljós að það var rétt að vísindasamfélagið (lesist IPCC sem fékk Nóbelinn fyrir vikið) reiknaði ekki alveg rétt. Breytingarnar gerast nefnilega miklu HRAÐAR en reiknað var með. Einmitt. Óvissan var nefnilega líka á þann veginn.

Höfin sem sé verða miklu súrari miklu hraðar en fyrr. Lesist eitruð. Ísinn á skautunum bráðnar miklu hraðar. Hér og hér. Lesist hækkandi sjávarborð. Lesist Golfstraumurinn í hættu. Metangasið bundið í sífrera Síberíu og Kanada losnar í miklu meira mæli en áður var talið. Hér og hér. Lesist margföld gróðurhúsaáhrif. Metan er 25 sinnum virkara en CO2.

Svo þá er það spurningin. Eigum við að reyna aftur að vita hvort óþægilegar staðreyndir hverfa ekki af sjálfu sér, ef við bara óskum þess nógu heitt og verðum samtaka, - ja allavega meirihutinn, hann ræður jú, - um að afneita þeim ???

Eða gera eitthvað ? Kannski er það ekki ennþá of seint.

 


mbl.is Höfin verða súrari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kjartan Rolf Árnason

Höfundur

Kjartan Rolf Árnason
Kjartan Rolf Árnason
Ljóðrænn verkfræðingur með skoðanir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  •  46316580 arctic temperatures 466gr

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband